Virknipunktagreining
Instant þjónustugátt
Sérsmíði í veflausnum

Virknipunktagreining

Virknipunktagreining (e. function point analysis) er margreynd aðferð til þess að áætla og meta umfang hugbúnaðarverkefna. Virknipunktur (e. function point) er mælieining sem lýsir þeirri virkni sem upplýsingakerfi bjóða notendum. Með því að greina hugbúnaðarverkefni niður í virknipunkta er auðveldara að gera grein fyrir umfangi þeirra og í framhaldi af því, gera raunhæfar kostnaðar- og tímaáætlanir. Segja má að með virknipunktagreiningu takist ágætlega að bera huglægt mat við hlutlægan mælikvarða.

 

Hver er ávinningurinn?

Með betri áætlanagerð er hægt að nýta öll aðföng betur og ná meiri stjórn á kostnaði. Það er reynsla forsvarsmanna Namcook, samstarfsaðila Habilis, að kostnaðaráætlanir gerðar með virknipunktagreiningu standist með 5% vikmörkum.

 

Hvað er Namcook, samstarfsaðili Habilis?
Namcook er bandarískt ráðgjafarfyrirtæki í eigu Capers Jones og hóps sérfræðinga í greiningu á virknipunktum. Capers Jones hefur starfað á þessu sviði í rúm 30 ár og er í dag viðurkenndur sem einn helsti sérfræðingurinn sem völ er á í greininni. Hann hefur veitt fjölmörgum stórfyrirtækjum ráðgjöf um hugbúnaðargerð og er viðurkenndur matsmaður í málarekstri sem tengist hugbúnaði fyrir alríkisdómstólum í Bandaríkjunum.

 

Hvað er SRM?
SRM er skammstöfun fyrir Software Risk Master sem er hugbúnaður sem tekur við ákveðnum forsendum í tengslum við hugbúnaðargerð og áætlar svo umfang verksins, vikmörk í kostnaði og tímaáætlun út frá þeim. SRM er afurð 30 ára vinnu og upplýsingaöflunar Capers Jones, en hugbúnaðurinn styðst við gagnagrunn sem inniheldur nákvæmar upplýsingar um rúmlega 15 þúsund hugbúnaðarverkefni af öllum stærðum og gerðum sem flett er upp í til þess að finna hliðstæður við það verkefni sem verið er að greina hverju sinni.

 

Hver er sérhæfing Habilis í virknipunktagreiningu?
Finnur H. Jónsson, aðal ráðgjafi Habilis í virknipunktagreiningu, hefur nýtt þessa tegund greiningar í tæplega 16 ár með góðum árangri fyrir aðila á borð við Eimskip, Samskip, Baan og Netverk. Finnur hefur um langt árabil verið í sambandi við Capers Jones sem leiddi til þess að samstarf komst á á milli Habilis og Namcook.

 

Hvernig gengur virknipunktagreining fyrir sig?
Ráðgjafi Habilis greinir verkefnið með kaupanda og safnar saman lykilforsendum fyrir innsetningu í SRM. Þegar því er lokið eru forsendurnar færðar í SRM sem umreiknar þær í virknipunkta og leitar í gagnagrunninum að hliðstæðum verkefnum.

 

Hverjar eru helstu forsendurnar?
Helstu forsendur eru þróunarumhverfi, fjöldi starfsfólks sem kemur að verkinu, hæfni starfsfólksins, markmiðasetning hvað varðar gæði kóðans, ráðstafanir þegar kemur að villuleit o.s.frv.

 

Hvernig er hægt að vinna áfram með SRM til þess að fá gleggri mynd af umfangi verks?
Með SRM er auðvelt að fá svar við fjölda ólíkra spurninga á borð við hvað gerist ef forriturum er fjölgað eða fækkað? Hvað ef markmið um gæði kóðans breytast? Hvað ef fjöldi prófunaraðila breytist? Hvað gerist ef verkefnið er fært yfir í annað þróunarumhverfi? Möguleikarnir eru margir og niðurstöðurnar hjálpa til við að gera áætlanagerð raunsærri og nákvæmari.

 

Hvaða árangur næst að jafnaði með notkun virknipunktagreiningar?
Það fer vissulega eftir hverju verkefni fyrir sig, en rannsóknir sýna að nákvæmni kostnaðar- og tímaáætlana í hugbúnaðargerð eykst umtalsvert með réttri notkun virknipunktagreiningar.

 

Þarf þekkingu á virknipunktagreiningu innan míns fyrirtækis svo ég geti nýtt hana?
Nei, ráðgjafi Habilis sér um að draga fram réttar upplýsingar í forsendugerðina og nýtir til þess margra ára reynslu á því sviði. Í þessu ferli nýtist sérfræðiþekking hvers og eins því afar vel.